Um félagið

Stiklað á stóru.

Skotfélagið Ósmann

í 20 ár.

 

 

Stofnfundur  8 maí 1991 og starfsárið 1991-1992

 

Upphafið að stofnun félagsins var undirskriftarsöfnun til að kanna með áhuga á  stofnun skotfélags í Skagafirði. Að söfnuninni stóðu þeir Smári Haraldsson og Kristján B. Jónsson. Stofnfundurinn var síðan 8. maí 1991  Fyrstu lög félagsins voru kynnt og samþykkt ásamt nafni félagsins og gerð var tillaga að félagsmerkinu. Smári var formaður félagsins fyrsta starfsárið. Sá tími var notaður til að finna heppilegt svæði undir skotvöll og í september 1991 var leitað til landeigenda á Steini á landi til leigu og var leigusamningur samþykktur í október sama ár. Fyrsti völlurinn var töluvert utar og ofan við þjóðveginn  en nú er.

Félagsmenn fóru á skotvöllinn á Húsavík og héldu fræðslu- og myndbandssýningar um veiðibráð og leirdúfuskytterí en stærsti viðburðurinn var fyrsta alvöru byssusýningin sem haldin var hérlendis. Sýningin var í Safnahúsi Skagfirðinga að viðstöddum 313 gestum víða að af landinu og fjallað var um hana í fjölmiðlum, framkvæmdarstjóri hennar var Jón Pálmason sem tók einmitt við formensku félagsins ári síðar. Ágóði sýningarinnar var svo nýttur til að koma framhlaðningi Jóns Ósmanns nr. 4 í sýningarhæft ástand og láta smíða undir hann sýningarkassa.

 

 

Starfsárið 1992-1993

 

Haldnir voru reglulega fundir og einnig sendi félagið  fulltrúa á fund í Reykjavík þar sem fjallað var um blýhögl og áhrif þeirra á umhverfið. Félagið vann tvisvar sinnum umsögn varðandi frumvarp til laga um friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, að undanskildum hvalnum, sem sendar voru umhverfisnefnd Alþingis og alþingismönnum okkar kjördæmis. Einnig sá félagið sig knúið til að fordæma rjúpnaveiðar neðan girðingar í skógarhlíðinni.

Framkvæmdir á skotæfingarsvæði félagsins voru eftirfarandi; sett var upp skilti með merki og umgengnisreglum félagsins, settur var upp staur fyrir staurkastara og svæðið aðskilið frá þjóðveginum. Nú var félagið í stakk búið til að taka þátt í skotvopnanámskeiðum í samstarfi við lögregluna.

Framhlaðningur Jóns Ósmanns var sendur til Agnars Guðjónssonar byssusmiðs í andlitslyftingu.

 

 

Starfsárið 1993-1994

 

Æfingarsvæði félagsins verður áfram í landi Steins á öðrum stað og stefnt er að varanlegri uppbyggingu þar. Félagið lét teikna upp jörðina og mæla út fyrir skotvelli á nýja staðnum. Sótt var um leyfi fyrir starfseminni á þann hátt að löglega yrði staðið að uppbyggingunni. Eftir langa þrautargöngu veitti Byggingarnefnd Skagafjarðar okkur loksins leyfi fyrir vellinum þann 26. apríl 1994, en þá áttu Hreppsnefnd Skarðshrepps og skipulag ríkisins þó eftir að fjalla um málið.

Um haustið sendi félagið frá sér sína þriðju umsögn varðandi veiðifrumvarpið og einnig var unnið að gerð sameiginlegrar umsagnar í samvinnu við Skotvís og önnur skotfélög. Formaður félagsins varð fulltrúi félagsins á fundi, um styttingu rjúpnaveiðitímabils, sem haldinn var í Reykjavík að tilhlutan Skotvís og Skotrein.

Á árinu var lokið við að sauma félagsmerkið okkar þannig að nú ganga flestir um í vel merktum flíkum.

Á íslenska þjóðminjadeginum afhenti félagið byggðasafninu í Glaumbæ framhlaðning Jóns Ósmanns og var byssunni komið í sýningarhæft ástand á kostnað félagsins.

 

Starfsárið 1994-1995

 

Okkur barst lokaumsögn um uppbyggingu á skotsvæði í landi Steins á Reykjaströnd og sáum við fyrir endann á þrautargöngu okkar um völundarhús skrifstofukerfisins sem tók um 1 ár.

Við héldum því áfram uppbyggingu svæðisins og eru skotturnar nú hér um bil fullsmíðaðir og unnið var við að koma turnunum fyrir á endanlegum stað.

Formaðurinn fór eina ferð til Reykjavíkur á vegum félagsins þar sem hann setti rjúpnaráðstefnuna sem haldin var að tilstuðlan Skotvís. Og fyrsta konan gerðist meðlimur í félaginu.

 

 

 

Starfsárið 1995-1996

 

Á þessu ári risu skotturnarnir upp og í maí fengum við gefins gamlan bensínsöluskúr frá Olís sem nota átti sem íverustað og þurfti hann töluverða lagfæringu.

Félagi okkar Ellert Aðalsteinsson varð íslandsmeistari í leirdúfuskotfimi.

Þrír að meðlimum skotfélagsins tóku þátt í ferð til Belgíu sem að Byssuvinir stóður fyrir.

Þann 8 maí varð skotfélagið Ósmann 5 ára.

 

 

 

Starfsárið 1996-1997

 

Í desember réðst félagið í það að festa kaup á rafdrifnum kastvélum af Skotfélagi Ólafsfjarðar og var kaupverðið 100.000 kr. sem kom að hluta til úr vösum nokkra félagsmanna.

Gamli Olís skúrinn var settur niður á svæðið eftir að hafa verið málaður og lagfærður, unnið var að hurðasmíði og uppsetningu á hurðum fyrir turnana, smíðuð gólf undir kastvélarnar og skotlúgur settar á turnana. Einnig var gert við rafstöðina sem við fegnum gefins um árið.

Tvisvar var brotist inn hjá okkur og bæði leirdúfum og kösturum stolið. Félagið Ósmann tók þátt í byssusýningu í Perlunni sem Byssuvinafélagið í Reykjavík stóð fyrir.

 

 

 

Starfsárið 1997-1998

 

Á síðasta starfsári félagsins, sem var jafnframt það sjöunda, náðum við því langþráða markmiði að taka skotæfingasvæði félagsins formlega í notkun. Það var gert á íþróttadegi fjölskyldunnar þann 12. júlí 1997. Svæðið er nú búið rafdrifnum kastvélum og völlurinn og umgjörð hans eru mjög snyrtilegt.

Félagið ásamt Skotvís beitti sér fyrir því að vörugjald af byssum og skotfærum yrði fellt niður til samræmis við aðrar íþróttavörur.

 

 

 

 

 

 

Starfsárið 1998-1999

 

Skotvöllurinn var girtur af, unnið var við gerð bílastæða, plantað var innan girðingar og byrjað á hellulögn. Auk þess var vegvísir settur upp, við Skarð, sem vísar veginn á skotsvæðið. Á árinu var gengið frá þinglýstum lóðarleigusamningi við landeiganda til 15 ára og sömuleiðis var keypt trygging á skotsvæðið og starfsemina þar, sem nú er nauðsynlegt samkvæmt lögum.

Einnig var verið að vinna að starfsleyfi fyrir völlinn í samvinnu við lögregluembættið svo heimilt sé að efna til skotæfinga og skotkeppna, en það er lögreglustjóri sem gefur út slíkt leyfi. Félagið sendi frá sér fréttatilkynningu í Feyki um ólöglega rjúpnaveiði á vélsleðum og lánaði byssur til sýninga utan héraðs.

 

 

Starfsárið 1999-2000

 

Sumartíminn var að venju notaður til þess að vinna að vallarsvæðinu. Unnið var við hellulögn, plantað í skjólbelti, völlurinn lagfærður, sett upp stór kúlugildra og unnið  að vegabótum, keyrt var ofan í veginn og hliðið fært.

Þá var ætlunin að fitja upp á þeirri nýbreytni að halda reglulega fjölskyldudag.

 

 

Starfsárið 2000-2001

 

Plantað var bæði skógar- og limgerðisplöntum, hellulagt og unnið að því að koma upp og ganga frá húsi undir væntanlega Trap-vél.

Félagið stóð fyrir tveimur skoðunarferðum til Akureyrar sem urðu til þess að félagið réðst í að kaupa riffilmarksskotskífu frá Noregi og markskífur og siluettur í dýralíki voru smíðaðar.

Þá er rétt að geta þess að félagið sótti um styrk til sveitarfélagsins að fá keypta aðra færanlegu skólasofuna, sem stendur við Barnaskólann, ef hún yrði seld.

 

 

 

Starfsárið 2001-2002

 

Heimasíðugerð félagsins er komin vel á veg og klárast vonandi með vorinu. Félagið sótti um styrk í annað sinn til Vegagerðar ríkisins til lagfæringar á vegi niður að skotsvæði félagsins og gekk það eftir. Vegurinn er nú fær öllum bílum og helst nú opinn töluvert lengur á árinu. Félagið keypti einnig skilti af vegagerðinni sem sett var upp við sláturhús K.S. á Eyrarvegi sem var ætlað til þess að minna á félagið og vísa veginn að skotvellinum.

Komist var að samkomulagi við landeigendur Steins um kaup á svæðinu og var samningur undirritaður þann 29 ágúst 2001 og kaupsamningi þinglýst í september sama ár. Keyptir voru 5,8 hektarar af landi sem liggur að sjó að austanverðu. Nákvæm lega landsins kemur fram á afstöðumynd sem unnin var af Verkfræðistofunni Stoð og er nú skotvöllur félagsins kominn inn á aðalskipulag Skagafjarðar. Skotfélagið Ósmann er því eina félagið á landinu sem á sitt eigið skotæfingasvæði.

 

 

 

Starfsárið 2002-2003

 

12 starfsárið er á enda og eins og undarfarin ár ræðst framkvæmdarhraði af því fjármagni sem til staðar er. Á þessu ári var komið fyrir snyrtiaðstöðu á vallarsvæðinu en  sú framkvæmd var orðin mjög aðkallandi vegna gríðarlegrar fjölgunar á þeim hópum sem koma í heimsókn ár hvert. Gestirnir eru á vegum Ævintýraferða og notfæra þeir sér skotvöllinn undir leiðsögn okkar manna.

 

 

Starfsárið 2003-2004

 

Félagið lagði fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þess hvernig ríkislögreglu-stjóraembættið túlkar reglugerð um skotvopn og skotfæri frá 1998. Félagið sótti einnig um einkaleyfi fyrir merki félagsins og um starfsleyfi fyrir skotvöll félagsins.

Þá sótti félagið um notað ristarhlið og niðursetningu á því til Vegagerðar ríkisins á Sauðárkróki sem úr varð. Á vallarsvæðinu var ristarhliðið sett niður, svæðið girt af, varúðarmerki sett upp, haldið áfram með plöntun auk þess sem unnið var að hönnun rifflabrautar og hún stikuð.

 

 

Starfsárið 2004-2005

 

Félagið lagði vallarsvæðið til endurgjaldslaust undir landsmót ungmennafélaganna. Þar var haldinn stærsti skotviðburður ársins og keppt bæði í leirdúfuskotfimi og riffilskotfimi. Framkvæmdir sem ráðist var í fyrir landsmótið voru þær helstar að ljósavélin var færð og grafin niður, sleppibúnaður kastvélanna var gerður þráðlaus, riffilbraut með öryggismön var gerð og skotskýli  reist.

Framkvæmdir kostuðu hátt í 3.000.000 kr. Rétt er að geta þess að félagið fékk greiddar kr 400.000 upp í  kostnað sem  það lagði í úr sjóðum ungmennafélaganna og sveitarfélagsins.

Annar eftirminnilegur atburður þetta árið var sá að félagið vann kærumál sitt við Dómsmálaráðuneytið og hefur nú hlotið formlega viðurkenningu frá ríkislögreglustjóraembættinu.

Veiðistjórnunarsvið umhverfisstofnunar gerði samkomulag við félagið um að það heldi verklaga hlutann á þeim skotvopnanámskeiðum, sem haldin yrðu á Sauðárkróki.

 

 

Starfsárið 2005-2006.

 

Haldið var áfram með uppbyggingu á skotsvæðinu, riffilbrautin var lagfærð, gerðar manir til skjóls og sáð í þær. Einnig var  hin langþráða  trappvél keypt og hún sett upp og tengd. Vélin virkar vel, enda um að ræða nýjustu og fullkomnustu vél sem skotfélag hefur yfir að ráða hérlendis. Vélin kostað  til okkar kr. 435.000 og félagið var ennþá í mínus eftir miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir landsmótssumarsins.

Á liðnu ári fór óhemju mikill tími í bréfaskriftir varðandi mál sem félagið tók að sér fyrir einn félagsmann Ósmanns, en í leiðinni fyrir alla skotvopnaleyfishafa. Málið varðaði skráningu á hálfsjálfvirkum riffli. Hálfur sigur vannst í því máli.

Þann 9. maí næstkomandi eru 15. ár liðin frá stofnun Skotfélagsins Ósmanns  og það því á merkum tímamótum. Félagið hefur fyrir löngu sannað tilverurétt sinn og byggt upp eina alglæsilegustu aðstöðu landsins.

 

 

 

Starfsárið 2006-2007

 

8 maí náði Skotfélagið Ósmann þeim tímamótum að verða 15 ára gamalt. Ekki hár aldur, en fyrir félag úti á landsbyggðinni töluverður áfangi á þroskabrautinni. Þessum áfanga hefði félagið ekki náð nema fyrir samstillt átak félagsmanna og miklum áhuga.  Gæfa þessa félags er að við höfum getað starfað saman án þess að hrasa út af þeirri braut sem við höfum fetað og ekki þurft að eiða tíma og þreki í argaþras og rifrildi.

Við höfum alltaf gætt þess að hafa einhver verkefni til þess að vinna að og markmið að stefna að. Þess vegna stendur félagið svo vel sem raun ber vitni í dag, með svo glæsilega aðstöðu að eftir er tekið. Aðstöðu sem er reyndar farin að auglýsa sig sjálf.

Auk þess að byggja upp og endurbæta skotvöll félagsins, öllum skotmönnum og konum til hagsbóta, þá fer drjúgur tími í að sinna málefnum skotveiðimanna. Þar er fyrirferðarmest  hagsmunagæsla, þ.e. land – og veiðiréttarmál  með allri þeirri skriffinnsku sem því fylgir

 

 

Starfsárið 2007-2008

 

Riffilbrautin var lagfærð, drenskurðir gerðir og drenlagnir lagðar, svo að gjörbreyting varð á brautinni. Nýjar skeet vélar voru keyptar og settar upp, þannig að í dag þá getum við sagt með sanni að félagið okkar sé með allan vélbúnað af nýjustu og bestu gerð.

Gömlu skeet vélarnar voru teknar niður og færðar Skotfélagi Austurlands að gjöf. Stjórnin tók þá ákvörðun að gefa þær til skotfélags sem að hefði þörf á smá stuðningi varðandi uppbyggingu á sínu svæði, öllum skotáhugafólki til hagsbóta. Gerð var bogabraut eftir að sú íþróttagrein fór að hasla sér völl innan félagsins.

Ævintýraferðir leituðu til okkar eins og oft áður og á þeirra vegum munu hafa komið hátt í 400 manns, bæði skólaferðalög og aðrir hópar.

 

 

Starfsárið 2008-2009

 

Móttaka skólahópa var lífleg að venju og mikið um að vera hjá okkur í maí mánuði.

Norðurlandsmótið í skeet var haldið hjá okkur í ágúst og þar bar Guðmann úr Markviss sigur úr bítum.

Félagið áréttaði gamalt boð til Lögreglunnar á Sauðárkróki, þess efnis að þeir væru velkomnir á völlinn ef þeir hefðu hug á því að æfa sig eða halda námskeið fyrir sína menn. Fljótlega eftir þetta boð leitaði Lögregluembættið aðstoðar félagsmanna vegna landgöngu hvítabjarna. Ekki aðeins einu sinni heldur þrisvar, eins og frægt er orðið.  Þrátt fyrir mikið fjaðrafok varðandi þessar uppákomur þá stóð félagið utan við kastljós fjölmiðlanna og allt írafárið í kringum þessa atburði, og er það vel.

Okkur varð heldur betur ágengt þegar Dómsmálaráðuneytið úrskurðaði okkur í hag varðandi innflutningsleyfi fyrir hálfsjálfvirkum rifflum til handa fjórum félagsmönnum í Ósmann.

Framkvæmdir á vallarsvæðinu. Sáð var í skjólmanir, bogaaðstaðan lagfærð, gerð göngubraut að riffilhúsinu og ýmislegt fleira smálegt gert. Annað ristarhlið fékkst gefið og bíður uppsetningar.

 

 

Starfsárið 2009-2010

 

Tekið var á móti um það bil 700 unglingum í fræðslu og á námskeið. Fjölgun á milli ára er yfir 100 %. Heildarfjöldi gesta mun hafa farið yfir 1100  manns á liðnu starfsári.

Félagið réðist í þá framkvæmd síðastliðið sumar að fá ríkisrafmagn á svæðið Og hún skilaði sér strax til baka í formi vinnusparnaðar og hagræðingar varðandi umgengni um vallarsvæði, hús og búnað. Búið er að koma rafmagni í öll hús félagsins, auk þess sem settur var upp ljósastaur með sjálfvirkri kveikingu til að lýsa upp aðkomuna á vallarsvæðið.

Skemmtinefnd félagsins bryddaði upp á ýmsum nýjungum, eins og t.d. og her- og veiðiriffla-kvöldi.

Framkvæmdir á vallarsvæðinu voru af ýmsum toga, en hæðst bar þó, að ráðist var í þá stórframkvæmd að stækka klúbbhúsið að frumkvæði vallarstjóra. Sú aðgerð var löngu orðin tímabær og mun gerbreyta aðstöðu okkar varðandi móttöku hópa til mikilla muna. Auk þess sem húsið er mikið hlýlegra og á allan hátt betri íverustaður fyrir félagsmenn við spjall og afslöppun. Aðgengi fyrir fólk í hjólastólum var bætt með skábrautum og fleiru. Ristarhlið var sett niður uppi við þjóðveg og aðstaða fyrir rúturnar lagfærð varðandi það að ná þægilegri beygju að og frá heimkeyrslunni til okkar.

Félagið tók þátt í útivistar og vetrasýningunni Krafti í nóvember s.l. Þar var félagið kynnt í máli og myndum auk þess sem það stóð fyrir stórri sýningu á skotvopnum og bogum.

Félagið skaut skjólshúsi yfir listaverk sem sveitarfélaginu var gefið af FNV á Sauðárkróki.

 

 

Starfsárið 2010-2011.

 

Í mars var námskeið í umhirðu skotvopna.Leiðbeinandi var Arnfinnur Jónsson.

Félagið tók í apríl þátt í sýningunni Atvinna,  menning og mannlíf og kynnti starf félagsins. Opinn dagur var 1. maí Boðið uppá kaffi, brauð og kjötsúpu. Hægt var að fá leiðsögn í meðferð riffils, haglabyssu og boga hjá sérfróðum mönnum.

Fyrstu heiðursfélagar voru heiðraðir, þeir Hilmir Jóhannesson, Sigurfinnur Jónsson og Stefán Pálsson. Sigurfinnur hélt síðan upp á 80 ára afmæli sitt á skotvellinum, sem gæti verið einsdæmi.

Klúbbhúsið var stækkað einu sinni enn. Og aðgengi fatlaðra fært til betri vegar. Her- og veiðirifflakvöld og þríþraut (bogi, riffill, haglabyssa) voru haldin.

Félagið keypti ásamt Skagfirskum félagasamtökum auglýsingu til stuðnings Heilbrigðis-stofnuninni á Sauðárkróki. Heildarfjöldi heimsókna voru rúmlega 1600 manns samkvæmt gestabók félagsins.

 

 

 

Lokaorð.

 

Af föstum liðum gegnum tíðina má nefna, mánaðarlega fundi yfir vetrartímann, fréttabréf var gefið út fyrir tilkomu heimasíðu félagsins. Villibráðarkvöld á hverju hausti. Og félagið hefur árlega séð um verklegan þátt skotvopnanámskeiða, fyrir Umhverfisstofnun. Opinn dagur hefur til langs tíma verið 1 maí. Og þá má nefna að her- og veiðirifflakvöldin eru kominn til að vera.

 

Bankaupplýsingar

Nafn:

Skotfélagið Ósmann

Farsími:

Jón Pálma 858-9233 Erlingur 852-2506

Heimilisfang:

Háahlíð 12

Staðsetning:

550 Sauðárkrók

Kennitala:

500791-2099

Bankanúmer:

0310---26---001900
Flettingar í dag: 744
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 1395
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 636661
Samtals gestir: 71142
Tölur uppfærðar: 6.12.2024 08:50:44